0
Hlutir Magn Verð

Bláu svæðin

BLÁU SVÆÐIN :  8 hlutir sem við getum lært af heilbrigðasta fólki í heimi. 

ath. smella á mynd til að sjá að fullu.  

Á jörðinni eru nokkur svæði sem eru kölluð  “blue zones”  eða Bláu svæðin og eru heimahagar heilbrigðasta og langlífasta fólks á þessari jarðarkringlu.   

Sérfræðingar hafa tilgreint Bláu svæðin sem svæði þar sem er hæsta hlutfall fólks sem nær 100 ára aldri og jafnframt áberandi lágt hlutfall nútíma sjúkdóma eins og hjartasjúkdóma,  krabbameina og sykursýki.   

Meðal þekktustu Bláu svæðanna er Japanska eyjan Okinawa,   Barbagia svæðið á Sardiníu og svæði Sjöunda Dags Aðventista í Loma Linda í Californiu.  

Bláu svæðin eru ekki ríkustu svæðin,  þau eru ekki með hágæða matvöruverslanir á hverju horni eða aðgengi að fullkomnum æfingastöðvum,  besta heilbrigðiskerfi eða færustu læknum.  

Staðreyndin er að það sem einkennir Bláu svæðin er mikill einfaldleiki og þrátt fyrir það lifir fólk lengur og heilbrigðara lífi en nokkuð annað fólk á þessari jörð. 

Svo spurningin er hvað getum við lært af þeim ? 

Hvaða lærdóm getum við dregið af heilbrigðasta fólki í heimi og hverju getum við breytt í okkar umhverfi til að öðlast betra líf en áður ?   

Eftirfarandi eru 8 atriði sem hægt er að hafa til viðmiðunar.  

  1. Það er ekkert “eitt sem hentar öllum” matarræði.

Bláu svæðin eru dreifð um heiminn með mismunandi loftslag og ræktunarskilyrði þannig að aðgengi að svæðisræktuðu hráefni er ekki alls staðar það sama.    

Á japönsku eyjunni Okinawa nota íbúar  m.a. vínrauðar sætar kartöflur,  gerjað kombu sjávarsöl og shiitake sveppi sem sitt “ofurfæði ”   

Á Nicoya skaganum í Costa Rica telja íbúar fæði eins og svartar baunir,  grasker (squash) og banana vera sitt leyndarmál að langlífi.  

Þrátt fyrir að lykilfæða þessara tveggja svæða sé svo frábrugðin þá hafa þessi svæði lægstu dánartíðni miðaldra fólks á jörðinni.  

Mikið af þeirri fæðu sem finnst á einu Bláu svæði finnst ekki á öðru.   Þetta segir okkur að “eitt sem hentar öllum” matarræði er ekki það sem þarf til og að ekkert eitt töfrafæði er lykillinn að langlífi. 

Leyndarmálið er einfaldlega að borða úrval af fersku,  litríku fæði unnið úr plönturíkinu, ávextir, grænmeti, baunir osfrv.  

Og talandi um matarræði byggt á plöntum. 

  1. Plöntufæði er mikilvægast 

Þeir hópar fólks sem lifa að mestu á plöntufæði eru heilbrigðastir og lifa lengst.  

Á Bláum svæðum eins og Barbagia á Sardiníu og grísku eyjunni Ikaria er kjöt og mjólkurafurðanotkun mjög lítil en fiskur borðaður einu sinni til tvisvar í viku.   

Sjöunda Dags Aðventistar í Loma Linda Californiu eru alfarið grænmetisætur og neyta ekki kjöts.   Baunir eru mjög áberandi í fæðuvali allra Bláu svæðanna og þar eru vinsælastar soja baunir,  fava baunir, svartar baunir og linsu baunir sem próteingjafar.    

Vegna sterkrar tengingar neyslu á dýraafurðum og króniskra sjúkdóma eins og sykursyki,  hás blóðþrýstings og ýmissa krabbameina er auðsýnt að val á grænmetisfæði er ákjósanlegt þar sem ofangreindir sjúkdómar eru með lægstu tíðni í heiminum á Bláu svæðunum.   

  1. Minni vegalengdir á fæðuflutningi 

Annað sem er áberandi á Bláu svæðunum er hátt hlutfall neyslu á afurðum sem eru ræktaðar á svæðinu.   Ábúendur á Bláu svæðunum eru með eitt hæsta hlutfall ræktunarlands plöntu og grænmetis í heiminum. 

Afraksturinn er  ferskari og hreinni fæða og sú fæða sem er í árstíð hverju sinni.   Notkun á eitrunarefnum er nánast óþekkt og hefðbundnar ræktunaraðferðir tryggja að jarðvegurinn er frjór og næringarríkur. 

  1. Útivera   

Íbúar Bláu svæðanna verja miklum tíma undir beru lofti.   Þeir ganga, vinna,  leika,  rækta,  stunda garðyrkju og blanda geði úti sem þýðir að þeir njóta fersks lofts og birtu allan daginn. 

Áberandi er að Bláu svæðin eru öll tiltölulega nálægt miðbaug sem veitir færi á hlýrra veðri og aðgengi að sólu allan ársins hring.   Eins og við vitum þá er sólarbirta mikilvæg fyrir D vítamín upptöku,  gott skap og heilbrigðan svefn.  

Ef þú ert ekki það heppin(n) að búa á eyju í Miðjarðahafinu eða hitabeltis paradís þá er mælt með að taka D- Vítamín yfir dimmustu mánuðina t.d. oktober til april.  

Gerðu þér far um að verja eins miklum tíma og þú getur utanhús á þeim tíma t.d með göngutúrum því jafnvel lítil sólarbirta er betri en engin og það á að sjálfsögðu einnig við um sumartímann.  

  1. Hreyfing  

Annað sem er mjög áberandi á Bláu svæðunum er hvað fólk hreyfir sig mikið.  Fólk þar fer ógjarnan í líkamsræktarstöð eða út að hlaupa enda er hreyfing byggð inní þeirra daglega líf, göngur, garðyrkja eða leikir með vinum. Þau hlaupa,  hoppa,  moka og klifra.  Hreyfing er þeim eins náttúruleg og að borða og sofa.  

Ef þú vilt lyfta meiri þyngdum í réttstöðulyftu eða bæta þig í upphífingum þá er hreyfing eins og á Bláu svæðunum ef til vill ekki best til árangurs en til að öðlast betra og lengra líf er þetta einfalt.   Hreyfðu þig meira og líkami þinn mun þakka þér.  

  1. Góð hvíld   

Staðsetning Bláu svæðanna með tilliti til sólargangs gerir fólki þar kleyft að haga svefnvenjum sínum til samræmis við sólarlag og upprisu sólar. 

Þau fara að sofa skömmu eftir sólarlag og vakna við sólarupprás.  

Íbúar Ikarian í Grikklandi fara yfirleitt seinna að sofa en íbúar á öðrum Bláum svæðum en í staðinn fá þeir sér miðdegislúr.   Heildarsvefn fer aðeins eftir staðsetningu en er yfirleitt á bilinu 8 til 9 stundir.  

Það að fá nægan svefn er eitt það mikilvægasta sem þú getur gert fyrir heilsuna en því miður gleymist þessi þáttur hjá mörgum okkar.  

  1. Finna sér tilgang   

Íbúar Nicoy svæðisins í Costa Rica kalla þetta “plan de vida”  og íbúar Okinawa kalla það “ikigai” og í léttri þýðingu þýðir það “af hverju ég vakna á morgnana” .  

Áberandi er á Bláu svæðunum að fólk hefur sterkan tilgang og frá unga aldri er þeim kennt að lifa hvern dag með valin markmið,  sýna ákveðni og temja sér þakklæti. 

Hvað er það sem fær þig til að hoppa framúr að morgni og fagna deginum sem er framundan?  Það getur verið vinnan þín, fjölskyldan,  ferðalag,  musik,  æfingar eða list eða hvað sem vekur áhuga þinn.   Finndu það sem kveikir í þér og fylgdu því eftir með hjartanu og taktu eftir hvaða kraftaverk gerist. 

  1. Byggja samfélög   

Síðast en ekki síst er það samfélagið.  Íbúar Bláu svæðanna eru með þéttofið samfélagsnet og sterkar samfélagshefðir.   Tíma með vinum og fjölskyldu er forgangsraðað umfram allt annað.  Pör skuldbinda sig fyrir lífstíð,  litið er á börn sem mikla blessun og öldruðum er sýnd mikil virðing og umhyggja.   

Fólk á Bláu svæðunum skapa,  rækta og virða sín sambönd. 

Í Okinawa velur fólk sér  “moais”  snemma á lífsleiðinni það er lítill hópur af vinum sem bindast hvort öðru fyrir lífstíð. 

Á Sardiníu safnast íbúar þorpa og bæja vikulega saman og borða og njóta.   Öll Bláu svæðin eru með sterk samfélög og fjölskylduhefðir sem eru leiðandi í gegnum allt þeirra líf.  

Að láta góð sambönd hafa forgang er eitt það besta sem þú getur gert fyrir góða heilsu og hamingju.   Skapaðu djúp og góð vináttubönd og vertu óendanlega traust/ur.    Byggðu þinn eiginn hóp og elskaðu skilyrðislaust eins og enginn sé morgundagurinn.  

Það er án efa það besta sem þú getur gert til að bæta allt þitt líf og annara. 

FINNDU BLÁMANN 

Við getum öll lært af Bláu svæðunum en sannleikurinn er sá að ekkert af þessu er hávísindi eða markverðar nýjungar.   Staðreyndin er sú að fegurðin við Bláu svæðin er einfaldleikinn.  

Bláu svæðin fylgja ekki nýjustu tískustraumum í matarræði eða æfingum,  þau halda tryggð við lífstíl sem hefur haldist kynslóð eftir kynslóð.   Þau borða vel,  þau hreyfa sig meira og hlæja mikið.   Þau leggja áherslu á heilbrigði án þess að hugsa of mikið um það.  

Innlegg þýðanda .:  

Er þetta ekki eitthvað sem við getum framkvæmt ?   Það má fara yfir það í huganum hvert þessara 8 atriða eigi við eða henti  lífsmunstri á Íslandi þar sem loftslag með tilliti til samveru undir beru lofti,  sólargangur með tilliti til svefns,  ræktun fjölbreytts ferskmetis og útivera telst varla hagstæð á okkar hnattstöðu en við getum lagt okkur eftir að uppfylla flest þessi skilyrði með því að nýta það sem hrein og falleg náttúra Íslands færir okkur með það að markmiði að bæta líf okkar og ástvina okkar.  

Sýnum börnum okkar og ástvinum umhyggju og ástúð,  sinnum þeim vel sem þurfa umönnum,  sýnum öldruðum virðingu og hlustum á orð þeirra og óskir.   Síðast en ekki síst ræktum líkama okkar af alúð og dugnaði,  hlustum á hjartað,  verum óhrædd,  djörf og þakklát fyrir það sem við höfum og uppskeran mun verða ríkuleg.    

Josh Bolding hjá Vivo Life – samstarfsaðili Yogi.is   

Þýtt, endursagt og viðbætt    Þórhallur hjá Yogi.is   Þín velsæld – okkar ástríða 

www.yogi.is

www.vivolife.co.uk  

 

 

Nýjustu blogfærslurnar